Sveitarstjóri Húnaþings vestra hefur tilkynnt að veiðimenn geti keypt sér veiðileyfi til rjúpnaveiða í afréttarlöndum Húnaþings vestra. Leyfi fyrir tímabilið er 7500 krónur. Öðrum er veiði óheimil.
Gefin verða út leyfi til veiða á tvö svæði, annars vegar á Víðidalstunguheiði ásamt Króki, Stóru-Hlíð, Stóra-Hvarfi og Öxnatungu og hinsvegar á Arnarvatnsheiði og Tvídægru.
Aðeins eru seld veiðileyfi fyrir allt tímabilið, ekki fyrir einn dag í einu.
Tekið er fram að veiðimenn sem keypt hafa leyfi hafi einir heimild til að veiða á umræddum svæðum og eru veiðimenn hvattir til reka aðra í burtu og tilkynna það til skrifstofu sveitarfélagsins.
„Þess er vænst að veiðimenn virði það fyrirkomulag sem hér er kynnt og viðurkenni að það sé sanngjarnt og eðlilegt að greiða hóflegt gjald fyrir aðgang að takmörkuðum gæðum eins og rjúpnaveiði,“ segir í tilkynningu sveitarstjórans.
Þá hafa landeigendur Syðra-Kolugils, Hrappsstaða, Gafls og Lækjarkots í Víðidal takmarkað rjúpnaveiði í löndum sínum í haust, vegna mikils ágangs undanfarin ár og öryggis veiðimanna. Veiðileyfi verða eingöngu seld hjá Ferðaþjónustunni í Dæli og kostar dagurinn 6-7 þúsund krónur.
Rjúpnaveiðitíminn hefst næstkomandi föstudag. Hann dreifist nú á fjórar helgar og verður leyft að skjóta rjúpu í níu daga samtals, helmingi færri en í fyrra.