Talsverðar umræður urðu á landsfundi Samfylkingarinnar í morgun um heilbrigðis- og velferðarmál og kom m.a. fram gagnrýni á þær niðurskurðartillögur, sem stjórnendur Landspítala hafa lagt fram um að loka líknardeild á Landakoti og St. Jósefsspítala.
„Það átti aldrei að loka St. Jósefsspítala en það tókst velferðarráðherra jafnaðarmanna að gera," sagði Jón Kr. Óskarsson á landsfundi Samfylkingarinnar í morgun. „Ég vona að þeir hugsi alvarlega um hvað þeir eru að gera áður en þeir fara í slíka framkvæmd."
Þá lagði Ingibjörg S. Guðmundsdóttir fram tillögu á fundinum um að landsfundurinn krefðist þess að skoðaðar yrðu allar leiðir til að hætta við lokun líknardeildar á Landakoti. Sparnaður við lokun deildarinnar sé áætlaður 50 milljónir. „Við krefjumst þess að þessir fjármunir verði teknir annars staðar t.d. með töku veiðileyfagjalds fyrir makrílveiðar við Íslandsstrendur," sagði í tillögunni.
Kristín Á. Guðmundsóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, og nýkjörin formaður 60+, samtaka Samfylkingarfélaga 60 ára og eldri, var meðal þeirra sem lýstu stuðningi við tillögu Ingibjargar og sagði það mjög alvarlegt mál að loka eigi líknardeildinni, sem væri öldrunarlækningadeild en ekki hjúkrunarheimili.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði að Landspítalinn hefði farið faglega yfir það sem hægt væri að gera í sparnaðarskyni á sínum deildum. Þótt deildinni á Landakot yrði lokað yrði rúmum fjölgað á líknardeildinni í Kópavogi þannig að þar yrði rými fyrir 14-15 sjúklinga, sem væri svipaður fjöldi og hefði verið á líknardeildunum á undanförnum árum. Þá væri aðstaðan í Kópavogi betri en á Landakoti, meðal annars einstaklingsherbergi með salerni og baði.
Guðbjartur sagðist bera mikla virðingu fyrir þeirri skoðun sem komi fram í tillögu Ingibjargar en hann lagði til við landsfundinn að tillögunni yrði vísað til þingflokks Samfylkingarinnar sem væri nú að fjalla um fjárlagafrumvarpið. Ingibjörg féllst á að breyta tillögu sinni í samræmi við það og var tillagan síðan samþykkt.