Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, segir að það séu mikil vonbrigði að Alcoa hafi hætt við áform um að byggja álver á Bakka við Húsavík. Kemur þetta fram á vef Vikudags á Akureyri.
Valgerður var iðnaðarráðherra þegar skrifað var undir viljayfirlýsingu við Alcoa árið 2006 um undirbúning uppbyggingu álvers þar.
„Auðvitað vona ég að yfirlýsingar stjórnvalda og Landsvirkjunar um að áhersla verði lögð á atvinnuuppbyggingu á norðausturlandi á næstu árum eigi við rök að styðjast. Svæðið býr yfir gríðarlega mikilli orku sem ekki hefur verið virkjuð nema að litlu leyti. Eftir að núverandi ríkisstjórn var mynduð kom í ljós að ýmis ljón voru á veginum og þarf það reyndar ekki að koma á óvart miðað við hvernig alþingismenn úr vinstri flokkunum höfðu beitt sér gegn framkvæmdunum á Austurlandi,” segir Valgerður í Vikudegi.
Hún segist jafnframt hafa gert sér grein fyrir því að fyrirtækið Alcoa væri ekki áhugasamt um að fara með stórar fjárfestingar inn í lönd í andstöðu við ríkjandi stjórnvöld.