Ákvörðun FME felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi ákvörðum Fjármálaeftirlitsins um álagningu stjórnvaldssektar á EA fjárfestingafélag. Þá er FME gert að greiða EA tvær milljónir kr. í málskostnað.

Í málinu var deilt um gildi ákvörðunar FME frá 31. maí 2011, um álagningu 15.000.000 króna stjórnvaldssektar á EA fjárfestingafélag, sem áður hét MP banki hf., vegna brots gegn ákvæði laga um takmarkanir á stórum áhættum.

Margeir Pétursson er aðaleigandi EA fjárfestingafélags hf.

Ákvörðun FME byggðist á vettvangsrannsókn sem framkvæmd var í árslok 2009, en hún leiddi í ljós að á bókum MP banka hf. hafi verið áhættuskuldbinding sem hafi numið 126,3 prósentum af eiginfjárgrunni bankans, en samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki megi áhætta vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptavina ekki fara fram úr 25 prósentum af eiginfjárgrunninum.

Segir í ákvörðun FME að stofnað hafi verið til lánveitinga og annarrar áhættu gagnvart fjórum einstaklingum sem allir sátu í stjórn bankans, annaðhvort sem aðal- eða varamenn. Fólst áhættan í lánum til hlutafélaga eða einkahlutafélaga í eigu þeirra eða til félaga sem þeir sátu í stjórnum hjá. Er tengslum einstaklinganna lýst sem „þéttriðnu tengslaneti fjórmenninganna sem var hnýtt með viðskiptatengslum og að hluta til fjölskylduböndum“.

Áhættuskuldbindingar MP banka hf. við þrjú félög og félög í þeirra eigu námu 4,3 milljörðum króna. Þá hafi bankinn stofnað til áhættuskuldbindinga við félög í meirihlutaeigu fjórmenninganna að fjárhæð 2,1 milljarður króna og námu skuldbindingarnar því samtals 6,4 milljörðum, sem var töluvert umfram eigið fé bankans.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að í ákvörðun FME hafi ekki verið færð viðhlítandi rök fyrir því með hvaða hætti fjórmenningarnir, Margeir Pétursson, Sigfús B. Ingimundarson, Sigurður Gísli Pálmason og Jón Pálmason, hafi haft bein eða óbein yfirráð hver yfir öðrum eða að einn þeirra hafi haft yfirráð yfir hinum. Einungis sé vísað til þess að þeir hafi haft með sér viðskiptalegt tengslanet til margra ára sem mætti jafna til þess að um væri að ræða varanlegt samkomulag, sem líklega hefði leitt til samstöðu þeirra um að stýra málefnum félaganna í samráði hver við annan.

Segir að grundvöllur ákvörðunar FME hafi ekki verið reistur á réttum lagaforsendum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert