Íslenska Gámafélagið ehf. og Sorpa bs. hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem fyrirtækin harma alvarlegt umferðarslys sem varð sl. miðvikudag utan við endurvinnslustöð Sorpu við Dalveg í Kópavogi. Þar lentu gámaflutningabíll og maður á reiðhjóli í árekstri.
„Bæði fyrirtækin taka þessu hörmulega atviki alvarlega og hafa brugðist við með því að fara yfir allt verklag, öryggi og aðstöðu, hvort hjá sér, í því skyni að auka öryggi og koma í veg fyrir slys.
Rannsókn slyssins er í höndum lögreglu höfuðborgarsvæðisins og fyrirtækin vinna einhuga með henni í að upplýsa málið að því marki sem þeim er unnt.
Hugur og hjarta starfsfólks okkar í þessum dapurlegu aðstæðum er hjá hinum slasaða og fjölskyldu hans," segir í yfirlýsingunni.