Úrskurðarnefnd, sem starfar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, hefur komist að þeirri niðurstöðu að fresta eigi að aflífa hundinn Golíat í Garðabæ þar til nefndin hefur komist að efnislegri niðurstöðu um hvort hundurinn eigi að fá að lifa eða ekki.
Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis ákvað í lok ágúst að krefjast þess að Golíat yrði aflífaður þar sem hann hefði sýnt af sér verulega hættulegt atferli. Ólíðandi væri, að hundur væri haldinn sem glefsi til og bíti vegfarendur þegar hann er laus úr gæslu.
Fram kemur í bráðabirgðaúrskurði úrskurðarnefndarinnar að hundurinn hafi ítrekað glefsað í gangandi vegfarendur. Dýraeftirlitsmaður fangaði Golíat í ágúst og kom honum fyrir í geymslu.
Úrskurðarnefndin segir að álit liggi fyrir frá dýralækni sem telji að glefs Golíats stafi frekar af hegðunarvandamáli en grimmd. Hundurinn hefði líklega ekki fengið nægilegt uppeldi og nægilega þjálfun.
Þá tók dýralæknirinn fram að til að minnka áhuga hundsins á að strjúka af heimilinu ætti að gelda hann. Í ljósi þessa, svo og á grundvelli þess að hundurinn sé í öruggri gæslu, taldi úrskurðarnefndin rétt að fresta réttaráhrifum ákvörðunar heilbrigðiseftirlitsins þar til efnisleg úrlausn úrskurðarnefndar liggur fyrir.
Ekki kemur fram í úrskurði nefndarinnar af hvaða tegund Golíat er.