Innbrot í sumarbústaði geta gengið nærri fólki og að sögn Theódórs K. Þórðarsonar, yfirlögregluþjóns í Borgarnesi, eru allmörg dæmi um að fólk hafi selt sumarbústaði sína í kjölfar innbrota.
Sumarbústaðaeigendur í Hvalfjarðarsveit og Skorradalshreppi hafa margir eflt öryggisvarnir við sumarbústaði sína til muna, komið fyrir hliðum og jafnvel eru dæmi um að þeir hafi sett öryggismyndavélar við hliðin, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Eftir hrinu innbrota í sumarbústaði á svæðinu í fyrrahaust kvíða margir sumarbústaðaeigendur haustinu. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er í þeirra hópi rætt um að taka höndum saman og auka enn þjófavarnir með fleiri öryggishliðum og öryggismyndavélum við sumarbústaðahverfi.