Aftur til sölu en 70% dýrari

Hús sem var sendiherrabústaður Íslands í London þar til 2009 en var þá selt á 8,7 milljónir sterlingspunda er aftur komið á sölu í London. Nú er farið fram á 14,9 milljónir sterlingspunda fyrir húsið sem er um 70% hærra verð en íslenska ríkið fékk fyrir bústaðinn. Í krónum munar einum milljarði.

Rétt er að taka fram að það er auðvitað fullkomlega óvíst að húsið seljist á uppsettu verði. Þá er heldur ekki loku fyrir það skotið að meira fengist nú fyrir nýja sendiráðsbústaðinn. Eðli málsins samkvæmt getur jafnmikil hækkun á ódýrara húsi þó ekki gefið eins mikið í aðra hönd.

Seldur til að bæta stöðu ríkissjóðs

Þegar utanríkisráðuneytið seldi sendiráðsbústaðinn, 101 Park Street í Mayfair-hverfinu, árið 2009 samsvaraði söluverðið 1,7 milljörðum íslenskra króna. Í staðinn var keyptur annar ódýrari bústaður og nam kaupverð hans um 4,5 milljónum punda, um 835 milljónum íslenskra króna á þáverandi gengi. Bústaðurinn var seldur til að bæta afkomu ríkissjóðs.

Verðmiðinn sem nú er settur á húsið samsvarar ríflega 2,7 milljörðum íslenskra króna en ef miðað er við gengið þegar bústaðurinn var seldur er hið uppsetta verð, í íslenskum krónum, um 2,9 milljarðar.

Í auglýsingu Wetherell-fasteignasölunnar kemur fram að í húsinu séu mörg herbergi og rúmgóð móttökuherbergi og að hægt sé að ganga beint út í garð. Leyfi sé fyrir því að stækka húsið umtalsvert.  

Á vef fasteignasölunnar, sem sérhæfir sig í fasteignum í hinu dýra Mayfair-hverfi, segir m.a. að órói víða um heim, bæði í stjórnmálum og fjármálum, hafi leitt til þess að meiri eftirspurn sé eftir íbúðum í dýrum hverfum í London.

Endurnýjaður á árunum 1998-1999

Sendiherrabústaðurinn við Park Street var endurnýjaður töluvert á árunum 1998-1999 og nam kostnaður við endurbæturnar 98 milljónum króna, eins og fram kemur í skilamati Framkvæmdasýslu ríkisins. Þar má einnig sjá nokkrar ljósmyndir af bústaðnum, þó ekki eins söluvænlegar og þær sem breska fasteignasalan birtir á vef sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert