Eftir því sem fötluð börn eldast verða þau meira einmana en hins vegar minnkar einelti við fötluð börn í skóla þegar þau eldast. Þá telja of margir fatlaðir einstaklingar að þeir fái of litlu ráðið um líf sitt, fái of litla þjónustu til að taka þátt í samfélaginu og telja sig ekki hafa tækifæri til að sinna einhvers konar daglegum viðfangsefnum. Einnig segjast of margir fatlaðir einstaklingar ekki nógu ánægðir með búsetumöguleika, telja sig þurfa meiri aðstoð á heimilinu en þeir fá og telja sig þurfa meiri aðstoð við skipulagningu daglegs lífs.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í stöðuúttekt á þjónustu við fatlað fólk við tilfærslu á málaflokknum frá ríki til sveitarfélaga um síðustu áramót en rannsóknin beindist að þjónustunotendum og aðstandendum þeirra, auk starfsmanna í þjónustu við fatlað fólk. Í tilkynningu segir að rannsóknin hafi verið gerð á vegum velferðarráðuneytisins í samvinnu við Félagsvísindastofnun, Rannsóknarstofnun í fötlunarfræðum og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.
Fram kemur í tilkynningu að eitt af meginmarkmiðum tilfærslunnar er að bæta þjónustu við fatlað fólk og auka möguleika á að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum. Þá er ráðgert að gera sambærilega úttekt á árinu 2014 til að meta faglegan ávinning af tilfærslunni.
Ráðstefna um niðurstöður og leiðir
Á morgun verður haldin ráðstefna í Hörpu þar sem farið verður yfir niðurstöðurnar og lögð áhersla á að skoða niðurstöður stöðuúttektarinnar og draga lærdóm af þeim til framtíðar segir í tilkynningu. Þar verður horft til framtíðar varðandi hugsanlegar breytingar á áherslum eða forgangsröðun með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknarinnar og lærdómi sem hægt er að draga af henni.