„Það er bara því miður þannig að endurskipulagning á skuldum fyrirtækja hefur einhver áhrif til skekkingar á samkeppnisstöðu. Það er óhjákvæmilegt," segir Höskuldur Ólafsson bankastjóri þegar spurt er hvort það að setja nýtt hlutafé inn í Pennann til lækkunar á skuldum skekki ekki samkeppnisstöðu.
Höskuldur segir bankann hafa sett nýtt hlutafé inn í Pennann, sem hafi verið nýtt til að borga upp skuldir við bankann en í dag hafa málefni Pennans og Arion banka verið í fréttum vegna opnuauglýsingar sem birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem tólf fyrirtæki saka Arion banka og Pennann um að skekkja samkeppnisaðstöðu á markaði og er þar meðal annars vísað til þess að bankinn hafi sett tvö hundruð milljónir í rekstur Pennans.
Tekið of langan tíma
Höskuldur viðurkennir að endurskipulagningarferlið hafi tekið langan tíma. „Að mínu mati of langan tíma,“ segir Höskuldur sem segir bankann búinn að endurskipuleggja fjármál yfir eitt þúsund fyrirtækja og eðlilega taki mál mislangan tíma. Sem dæmi hafi hlutur bankans í N1 verið seldur ári fyrr en ætlað var.
„Penninn er svo á hinni hliðinni og dæmi um fyrirtæki sem hefur gengið allt of hægt að klára. Það er ekki hægt að útiloka að það skekki eitthvað samkeppnisstöðu en það gera allar þessar aðgerðir sem við og hinir bankarnir erum í, að endurskipuleggja þessi fyrirtæki, fella niður skuldir og skuldbreyta. Það hefur allt áhrif á samkeppni,“ segir Höskuldur um leið og hann ítrekar að armslengdarsjónarmið hafi ráðið við aðkomu Arion banka að Pennanum.
Samkeppniseftirlitið hefur lagt bönkum línur þegar kemur að endurskipulagningu fyrirtækja til að draga sem mest úr neikvæðum áhrifum á samkeppni og sendi í dag frá sér yfirlýsingu í kjölfar frétta af málefnum Arion banka og Pennans.
Höskuldur segir reglur Samkeppnisyfirlitsins mjög skýrar og að bankinn fari að þeim í einu og öllu. Sumt gangi mjög vel en það geti komið upp ófyrirséðar flækjur sem þurfi þá að leysa.
Hann vísar til þess að Samkeppniseftirlitið hafi bent á það að taka kvörtunum og kröfum fyrirtækja, þ.e. keppinauta, um breytingu á samkeppnisskilyrðum í tengslum við svona endurskipulagningu með fyrirvara.