Til ryskinga kom fyrir utan veitingahúsið Breiðina á Akranesi aðfaranótt sunnudags. Lögreglan segir að ekki sé vitað til þess að menn hafi sakað. Hins vegar hafi einn af „ólátabelgjunum“, líkt og lögreglan orðar það, brotið rúðu í bifreið og dældað aðra.
Að sögn lögreglu sá maðurinn hins vegar eftir öllu saman. Daginn eftir mætti hann á lögreglustöðina til að óska eftir upplýsingum um bíleigendurna svo hann gæti bætt þeim tjónið.
Þá missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Vesturlandsveginum í síðustu viku og hafnaði hún í skurði við veginn. Lögreglan á Akranesi segir að ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun við akstur, hafi sloppið ómeiddur. Hann var hinsvegar talsvert blautur eftir að hafa farið úr bifreiðinni í skurðinum, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.