„Hvernig væri að gefa nú skýrslu um ferðir starfsmanna Ríkisútvarpsins,“ spyr Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í pistli á bloggsíðu sinni. Tilefni skrifanna er það, að nýverið óskaði RÚV eftir upplýsingum um för Ögmundar til Mexíkó, þar sem hann sótti ráðstefnu um samgöngumál.
Svörin við spurningum RÚV voru birt á vef innanríkisráðuneytisins í gær.
Ögmundur segir að RÚV myndi sýna einlægan vilja í verki með því að birta upplýsingar um ferðir starfsmanna stofnunarinnar.
Hvernig væri að Óðinn [Jónsson] fréttastjóri gerði grein fyrir sjálfum sér og sinna starfsmanna á undanförnu ári? Páll [Magnússon] útvarpsstjóri mætti einnig gefa okkur skýrslu um sig og sína skrifstofu. Þetta er sagt í fullri alvöru,“ skrifar Ögmundur.
„Síðan væri verðugt rannsóknarefni að kanna ferðakostnað vegna ESB viðræðna, í stjórnsýslu, í ráðuneytum, á Alþingi, í fjölmiðlum, þ.á.m. RÚV. Ríkisútvarpið hefur sagt A. Nú verður varla látið staðar numið? Eða hvað, Óðinn og Páll,“ spyr innanríkisráðherra.
Ögmundur segist ekki gera minnstu athugasemd við það að fréttastofa RÚV vilji vita hvernig farið sé með skattfé almennings. Það sé hlutverk fjölmiðla að veita aðhald.
„Það er helst að ég staldri við þann skilning Ríkisútvarpsins að þátttaka í alþjóðasamstarfi hljóti fyrst og fremst að byggja á því að flytja þekkingu af ráðstefnum til síns heima en virðist ekki koma auga á þann möguleika að fulltrúar séu sjálfir veitendur, taki m.ö.o. þátt í umræðu og leggi til málanna,“ skrifar Ögmundur.
RÚV spurði ráðherrann m.a. að því hvernig sú þekking, sem skilaði sér til fundarmanna, yrði varðveitt í ráðuneytinu, t.d. eftir að ráðherrann láti sjálfur af embætti.
„Ég geri ekki heldur athugasemd við að Ríkisútvarpið skuli hefja rannsóknarfréttamennsku sína á mér. Einhvers staðar þarf að byrja. Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu,“ skrifar hann ennfremur.
Ögmundur gagnrýnir einnig á vef sínum hvernig vefmiðillinn eyjan.is sagði frá málinu.
http://ogmundur.is/