Sendiráðið skuldar 1320 pund

Frá Lundúnum.
Frá Lundúnum. Reuters

Íslenska sendiráðið í Lundúnum skuldar borginni 1320 pund, 242 þúsund krónur, vegna þess að bílar sendiráðsins hafa ekið inn á greiðslusvæði í miðborginni án þess að greiða tilskilin 10 pund í hvert skipti.

Þetta kemur fram á vef danska ríkisútvarpsins, DR. Ástæða umfjöllunar DR er að danska sendiráðið í borginni skuldar heil 264.560 pund, jafnvirði 48,5 milljóna íslenskra króna, af sömu ástæðu.

Gjaldskyldan í miðborginni var tekin upp árið 2003 og er ætlað að draga úr bílaumferð og þar með loftmengun. DR segir, að ástæðan fyrir þessum háa reikningi danska sendiráðsins sé að sektir hafi með tímanum bæst við upphæðina vegna þess að reikningarnir voru ekki borgaðir.

DR segir, að bresk stjórnvöld segi, að gjaldið sé ekki skattur heldur þóknun og því verði allir að greiða, líka erlendir sendimenn. Um tveir þriðju hlutar sendiráða í Lundúnum greiðir þetta gjald reglulega en um þriðjungur þrjóskast við. 

Bandaríska sendiráðið hefur safnað stærstu skuldinni eða 5.760.900 pundum eða rúmum milljarði króna. Sendiráðið segist líta á þetta gjald sem breska skattlagningu sem bandarískir sendimenn eigi að vera undanþegnir. Þessu eru bresk stjórnvöld ósammála.

Þýska sendiráðið skuldar 3,6 milljónir punda og það japanska 3,9 milljónir. Þá skuldar rússneska sendiráðið nærri 4,6 milljónir punda.

Finnska sendiráðið skuldar 124.160 pund samkvæmt skrám borgaryfirvalda í Lundúnum. Sendiráð Noregs og Svíþjóðar hafa hins vegar valið að greiða gjaldið og skulda því ekkert.  

Vefur DR

Sendiráðið skuldar ekkert

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert