Þarf að endurreisa trúverðugleika

Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar SteinarH

„Það er lítið við því að segja að stjórnin kjósi að fara frá, það er hennar réttur. En eftir sem áður er óleyst úr því hvernig unnt er að endurreisa trúverðugleika og traust á starfsemi Bankasýslu ríkisins,“ segir Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. „Ef athafnir manna þola ekki umfjöllun úr ræðustóli Alþingis  bendir það til þess að þær athafnir hafi ekki staðið sérlega traustum fótum.“

„Ég átti von á að sérþekking á bankamálum yrði lykilatriðið í þessari ráðningu,“ segir Helgi, sem hefur gagnrýnt Bankasýsluna harðlega fyrir ráðningu Páls Magnússonar í starf forstjóra stofnunarinnar.

Hann segir að ljóst sé að stofnunin njóti ekki trausts sem skyldi og að þar komi ýmislegt til. „Sú, sem hefur verið forstjóri er á förum frá stofnuninni og um tíma var mikið talað um að leggja hana niður. Það þarf að endurreisa trúverðugleika Bankasýslunnar.“

Helgi hefur verið nokkuð gagnrýndur fyrir orð sín um ráðninguna. Hann segir að hann hafi verið að gegna því hlutverki sem hann var kjörinn til.

„Engar opinberar stofnanir eru hafnar yfir gagnrýni og það er meðal annars hlutverk okkar sem eru kjörin á Alþingi að gagnrýna framkvæmdavaldið ef við teljum það hafa gert mistök eða ekki hafa fylgt lögum. Okkur í efnahagsnefndinni voru falin viðskiptamál í upphafi þessa mánaðar og mér innst mikilvægt að ég sem formaður nefndarinnar tali skýrt. Við höfum áður farið illa út úr því að tala ekki skýrt varðandi slík mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert