Vísar athugasemdum Sorpu á bug

Sett í ruslið.
Sett í ruslið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kastljós RÚV vísar athugasemd Sorpu um villandi málflutning um endurvinnslu úrgangs á bug. Í þættinum hefði verið bent á að íbúar á höfuðborgarsvæðinu hefðu flestir aðeins eina ruslutunnu við heimili sitt og allt sem færi í hana væri urðað. Öðru hefði ekki verið haldið fram.

Þetta kom fram hjá Þóru Arnórsdóttur, einum umsjónarmanni Kastljóssins, nú í kvöld. Hún vísaði til þess að Sorpa hefði birt auglýsingu í Fréttablaðinu í dag en auglýsingin var birt vegna „villandi málflutnings um endurvinnslu úrgangs í Kastljósi 20. október sl.“ eins og segir í auglýsingunni. Auglýsingin hefur einnig  birst í Morgunblaðinu.

Þóra benti á að í auglýsingunni kæmi ekki fram í hverju hinn villandi málflutningur hefði átt að vera fólginn. Staðreyndin væri sú að flestum íbúum höfuðborgarsvæðisins, utan þeirra sem leigja endurvinnslutunnur af einkaaðilum, væri ekki gefinn kostur á að flokka rusl.  Í fjölda sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins væri hins vegar allt rusl flokkað. Allt sem færi ofan í ruslatunnur á höfuðborgarsvæðinu væri urðað. Öðru hefði ekki verið haldið fram í Kastljósþættinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert