Aspirnar eyðilögðu ekki hitalagnir

Unnið við að fjarlægja aspirnar í gær.
Unnið við að fjarlægja aspirnar í gær. Rax / Ragnar Axelsson

„Það er ekki rétt að hitalagnirnar séu ónýtar en áhættan er fyrir hendi. Það er hætta á því þegar ræturnar þykkna að það þrengi að hitalögnunum. En ég hef ekki heyrt dæmi um að það hafi gerst," segir Þórólfur Jónsson garðyrkjustjóri Reykavíkur.

Í gær hófst vinna við að endurnýja trjágróður í Vonarstræti og Tjarnargötu. Það munu gráreynir, garðahlynur og skrautreynir leysa aspirnar af hólmi. Sagt var í frétt frá Reykjavíkurborg að rætur þeirra hefðu eyðilagt hellulagnir og hitalagnir. Samkvæmt Þórólfi er það ekki rétt. Ræturnar hafa þó eyðilagt hellulagnir. „Það er frekar að hellurnar séu að fara af stað og víða búið mörgum sinnum að taka hellurnar upp og höggva á ræturnar sem undir eru. Það er lítið annað hægt að gera þegar aspirnar stækka."

Spurður hvort sama hætta sé ekki til staðar með þær trjátegundir sem planta á í stað aspanna svarar Þórólfur að vissulega geti allar rætur gert óskunda. „En þessi tré sem við ætlum að nota hafa ekki sama kraft og aspirnar. Aspirnar eru fínar í 15-20 ár ef þeim er plantað litlum, en þær stækka svo og stækka. Rýmið sem við höfum úr að spila gefur ekki færi á að tréð stækki endalaust. Við erum þá að reyna aðrar tegundir sem vaxa ekki eins hratt og verðar ekki eins stórvaxnar."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka