Biðja á um aðstoð vegna krónu

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, telur að í ljósi þess að krónan eigi sér ekki viðreisnar von og við blasa gjaldeyrishöft um ókomin ár eigi að ræða milliliðalaust við pólitíska forystumenn helstu ríkja í Evrópu um beina aðstoð þeirra til að treysta stöðu gjaldmiðilsins. Þetta kom fram í máli Gylfa við upphaf formannsfundar ASÍ í morgun.

Húsnæðisvextir hér allt að fimm til sex sinnum hærri en á evru-svæðinu

Hann segir að húsnæðisvextir hér á landi hafi verið allt að fimm til sex sinnum hærri en á evrusvæði ESB s.l. 10 ár og í árslok 2010 greiddu evrópskir launamenn einungis 3,4% nafnvexti „samanborið við þau ofurkjör sem okkur er gert að greiða. Ef horft er til kaupa á venjulegri 3ja herbergja íbúð árið 2000 hafa hjón á meðallaunum mátt leggja að meðaltali um 12% af ráðstöfunartekjum sínum á hverju einasta ári aukalega í greiðslubyrði lána.

Ef litið er á þá skuldsetningu sem landsmenn eru nú með er þessi munur hvorki meira né minna en þriðjungur ráðstöfunartekna okkar – er nema furða að fólk sé reitt! Þar sem hér er um hreinan kaupmátt að ræða – kaupmátt sem það tæki okkur næstum áratug að byggja upp – er augljóslega eftir miklu að slægjast að okkur takist að sjá brýnum hagsmunum okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum borgið í aðildarviðræðunum þannig að af aðild geti orðið.

 Við eigum ekki að hlusta á falsboðskap, við eigum ekki að fara úr öskunni í eldinn, við eigum einfaldlega að nota aðild að Evrópusambandinu sem það ankeri sem við þurfum til þess að draga okkur upp úr þeim hjólförum sem við erum í, þannig getum við náð tökum á skuldavanda heimilanna því reynslan sýnir okkur að þau för sem við erum í geta ekki leitt okkur annað en á braut ófremdarástands sem eykur þann vanda sem við er að glíma."

Ekki eigi að láta skammtíma vanda evru, dals og jens villa sýn

Að sögn Gylfa var sú stefna ASÍ samþykkt árið 2008 að umsókn um aðild Íslands að ESB og upptaka evru væri eina færa leiðin út úr þeim ógöngum sem við værum í.

„Við vildum láta á það reyna í aðildarviðræðum hvaða samning Íslandi standi til boða og hann lagður fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu.Þessi afstaða hefur verið ítrekuð á öllum ársfundum síðan.

Eftir að farið var í þessa vegferð hefur gengið ótrúlega hægt að móta samningsmarkmið okkar, ríkisstjórnin er innbyrðis ósammála um markmiðin með þessu ferli, landbúnaðarráðherra kemur kerfisbundið í veg fyrir að hægt sé að skilgreina og samræma hagsmuni okkar í landbúnaði. Stjórnarandstaðan hamrar á því að fallið verði frá þessari umsókn og vill geyma að fjalla um framtíðina þangað til síðar og fara stefnu- og markmiðslaus í gegnum endurreisnina og væntanlega endað á sama vonlausa staðnum og við erum nú á!  Skýra forystu vantar hins vegar um það hvers vegna við ættum að gerast aðilar að Evrópusambandinu og lítt verður vart við tilraun til þess að útskýra það fyrir þjóðinni og skilgreina hvaða mál það eru sem munu bera væntan samning í gegnum atkvæðagreiðslu.

Í ljósi þess að krónan okkar á sér ekki viðreisnar von og við blasa gjaldeyrishöft um ókomin ár er ég þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að ræða milliliða laust við pólitíska forystumenn helstu ríkja í Evrópu um beina aðstoð þeirra til að treysta stöðu gjaldmiðilsins, hugsanlega með því að tengja krónuna beint við evruna með stuðningi bæði AGS og frá Norðurlöndunum. Þannig gæti almenningur og fyrirtæki fyrr notið þeirra vaxtalækkana og stöðugleika sem við þurfum á að halda. Við eigum ekki að láta skammtíma vanda evru, dollars og jens villa okkur sýn, evran er í fyrsta lagi eins og klettur í hafinu borið saman við þá krónu sem við búum við og í öðru lagi er vandi dollarsins enn meiri en evrunnar þar sem viðskiptahalli og halli á fjárlögum er töluvert meiri en í Evrópu.

Ég vil einnig leyfa mér að minna á, að þing ASÍ árið 2000 samþykkti ályktun um að stjórnvöld ættu að hefja undirbúning að umsókn um aðild að ESB og upptöku evru í stað þess að hverfa frá fastgengisstefnunni og taka upp fljótandi gjaldmiðil með verðbólgumarkmiði. Okkur var og er sagt að það sé mikilvægt að halda í sveigjanleika krónunnar, sveigjanleika sem hefur verið notaður til þess að ræna okkur bæði eignum okkar og tekjum," að sögn Gylfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert