Ræningjarnir höfðu ekki komið til Íslands áður

Hörður Jóhannesson og Jón H.B. Snorrason á blaðamannafundinum fyrir stundu
Hörður Jóhannesson og Jón H.B. Snorrason á blaðamannafundinum fyrir stundu mbl.is/Júlíus

„Við þekkjum ekki til þessara manna og þeir hafa eftir því sem við vitum ekki komið til Íslands áður,“ sagði  Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri um pólsku mennina sem grunaðir eru um ránið á Laugavegi.

Að sögn Harðar taldi lögreglan sig vita hverjir mennirnir þrír voru sem brutust inn í verslunina þegar tæpir tveir sólarhringar voru liðnir frá ráninu. Brátt kom hins vegar í ljós að þeir hefðu komist úr landi strax á fyrsta sólarhring eftir ránið. Þeir reyndust hafa flogið til Danmerkur. Með áframhaldandi rannsókn vöknuðu hins vegar grunsemdir um fjórða manninn, sem reyndist enn vera á landinu og var sá handtekinn í dag. Í kjölfarið fannst svo ránsfengurinn, sem maðurinn reyndist hafa geymt í bíl sínum. Talið er víst að þeir hafi ætlað sér að koma úrunum úr landi í góðu tómi.

Þrír bílar voru notaðir við ránið og voru þeir allir stolnir að sögn lögreglu. Fjórði bíllinn, sem þýfið fannst í, er á erlendum númerum. „Fyrir liggur að hinir grunuðu eru allir pólskir ríkisborgarar og fyrir utan þennan sem er í haldi núna og verður leiddur fyrir dómara höfum við gert ráðstafanir til þess að þessir menn verði teknir hvar sem til þeirra næst, eftirlýstir með eftirfylgni af okkar hálfu,“ sagði Jón H.B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri á blaðamannafundinum fyrir skemmstu.

Aðspurðir sögðu þeir Jón og Hörður ekki hægt að útiloka að Pólverjarnir ættu sér íslenska samverkamenn, en engar vísbendingar væru þó um það. Þá er ekki ljóst hvort ránið tengist erlendum glæpasamtökum, en að því beinist rannsóknin meðal annars nú.

Voru fljótir úr landi

Á miðvikudaginn í liðinni viku greindi Morgunblaðið frá því að mennirnir væru jafnvel taldir hafa farið úr landi síðegis á mánudag eða þriðjudagsmorgun, þrátt fyrir að eftirlit á Keflavíkurflugvelli hefði verið hert.

Frank Michelsen úrsmíðameistari sagðist þá telja víst að þýfið hefði verið flutt úr landi eða yrði flutt úr landi síðar. Ekki væri hægt að koma úrunum í verð hér á landi þar sem þau væru merkt með kennitölum. „Þetta er svo auðrakið hér á Íslandi,“ sagði Frank. Skv. þeim upplýsingum sem hann fékk frá Rolex-úraframleiðandanum var talið að úrin myndu líklegast enda í Svartfjallalandi sem væri „eins og svarthol fyrir þýfi í Evrópu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert