Enginn ók bílnum

Þrír voru teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Tveir þeirra, piltar á 17. og 18. ári, voru teknir á Nýbýlavegi í Kópavogi og við nánari athugun reyndust þeir líka vera ölvaðir.

Annar þeirra tók til fótanna og reyndi að stinga lögreglu af, en hafði ekki erindi sem erfiði, því lögregla hljóp hann strax uppi. Piltarnir neituðu staðfastlega að hafa ekið bílnum og neituðu að segja lögreglu hvor þeirra hefði setið undir stýri og var helst á þeim að skilja að bíllinn hefði ekið af sjálfsdáðum.

Þeir gistu fangageymslur í nótt og verða yfirheyrðir síðar í dag þegar þeir verða orðnir allsgáðir.

Einnig var karlmaður tekinn fyrir fíkniefnaakstur í miðborg Reykjavíkur.

Að auki var kona um þrítugt tekin grunuð um ölvunarakstur í miðborginni. Blóðprufa sem tekin var úr konunni staðfesti þennan grun lögreglu og síðan kom í ljós að hún var án ökuréttinda, en skírteini hennar hafði runnið út fyrir um áratug síðan.

Meðal annarra verkefna lögreglunnar í nótt voru fjögur innbrot, tvö þeirra voru í fyrirtæki og tvö á heimili. Þjófavarnarkerfi fór í gang í þremur tilvikanna, en í fjórða tilvikinu urðu íbúar varir við mannaferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert