Hverfandi líkur á að álver rísi í Helguvík

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar mbl.is/Árni Sæberg

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálms Birgissonar, eftir að hafa hlustað á forstjóra Landsvirkjunar, Hörð Arnarsonar, á formannafundi ASÍ að hverfandi líkur séu á að framkvæmdir vegna álversins í Helguvík verði að veruleika.

Það kom fram í máli Harðar að Norðurál ætti eftir að fjármagna verkefnið að andvirði 250 milljarða og taldi hann að það yrði gríðarlega erfitt fyrir Norðurál að fjármagna verkefnið sökum ástandsins á alþjóðlegum mörkuðum.

„Það var í raun og veru undarlegt að hlusta á forstjórann tala um Helguvíkurverkefnið því eins og áður sagði var ekki hægt að skilja forstjórann öðru vísi en að hverfandi líkur séu á því að þetta verkefni verði nokkurn tímann að veruleika.

Einnig kom fram í máli hans að ef allt myndi ganga upp varðandi fjármögnun og aðra þætti er lúta að þessari framkvæmd, þá væri í fyrsta lagi hægt að afhenda raforku til álversins eftir 5-6 ár. Aðspurður sagði forstjóri Landsvirkjunar að pólitísk afskipti gagnvart stjórn Landsvirkjunar í þessu máli og öðrum væru alls ekki til staðar. En að sjálfsögðu velta menn því fyrir sér hvort svo geti verið í ljósi þessara tafa sem hin ýmsu stóriðjuverkefni hafa mátt þola á undanförnum mánuðum og árum.

Þessi niðurstaða, ef rétt reynist, hlýtur að vera gríðarleg vonbrigði fyrir Suðurnesjamenn sem og þjóðina alla, vegna þess að hagvaxtaspár t.d. ASÍ byggjast að stórum hluta á því að þessar framkvæmdir fari á fulla ferð á næstu misserum. Við Akurnesingar þekkjum vel mikilvægi stóriðjunnar og þau sterku áhrif sem stóriðjan hefur á allt samfélagið. Á þeirri forsendu skilur formaður vel áhyggjur Suðurnesjamanna ef af þessum framkvæmdum verður ekki," segir í pistli sem Vilhjálmur ritar á vef Verkalýðsfélags Akraness.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka