Niðurskurðurinn 169 milljónir

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri. mbl.is

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 er gerð niðurskurðarkrafa á sjúkrahúsið á Akureyri sem nemur um 69 milljónum, eða 1.7%. Við þá tölu bætist sá halli sem er á rekstri ársins 2011 sem stefnir í  um 100 milljónir. Sjúkrahúsið þarf því að skera niður um 169 milljónir á næsta ári. Þetta kemur fram á vef sjúkrahússins.

Til þess að bregðast við þessu hefur verið ákveðið að grípa til margþættra aðgerða. Við mótun aðgerðanna hefur verið horft til þessa að öryggi sjúklinga og starfsmanna sé tryggt sem áður. Ekki er verið að fella út einstaka þjónustuþætti en búast má við að bið eftir annarri þjónustu en bráðaþjónustu lengist.

Aðgerðirnar eru bæði almennar og taka einnig til einstakra deilda þetta þýðir að mismunandi er skorið niður, og er þar  horft til bráðleika og nýtingar. Leitað var til stjórnenda og stýrihóps um tillögur til hagræðingar, breytinga á rekstri og rekstrarformum þannig að þjónusta við sjúklinga væri sem minnst skert og að  sjúkrahúsið verði rekið innan fjárlaga á næsta ári. Ljóst er að þessi niðurskurður mun hafa áhrif á þjónustu við sjúklinga en kapp er lagt á að bráðaþjónusta sé tryggð, segir á vefnum.

Störfum fækkar um 20-25

Við þessar breytingar er gert ráð fyrir að störfum við sjúkrahúsið fækki á milli 20-25  og aðgerðirnar hafi áhrif starfshagi 30-40  starfsmanna. Verður eins og unnt er reynt að nýta starfsmannaveltu við breytingarnar og er útlit fyrir að það takist að mestu.

Helstu aðgerðir sem gripið verður til eru:

Samdráttur í skurðstarfsemi

Fækkun rýma á hand- og bæklunarlækningadeild

Endurhæfingardeild verði breytt í 5 daga deild

Barnadeild verði breytt í 5 daga deild yfir sumartímann

Breytingar á vinnufyrirkomulagi og mönnun stoðdeilda svo sem á rannsókn og myndgreiningu

Minnkun trúarlegrar þjónustu

Breytingar á rekstri bókasafns

Minnkun á lyfjakostnaði og hagræðing í innkaupum og aðkeyptri þjónustu

Endurskoðun á starfsemi  augn-, HNE og barna og unglingageðdeilda

Fækkun starfsmanna á skrifstofu og í eldhúsi

Breytingar á stjórnskipulagi

Með þessum aðgerðum hefur Sjúkrahúsið á Akureyri skorið niður rekstrarkostnað um 700 milljónir á 4 árum eða um 17-19 %, segir í tilkynningu sem Þorvaldur Ingvarsson, forstjóri sjúkrahússins á Akureyri ritar undir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert