Fjöldi manns kom saman á Friðarbryggju í Vestmannaeyjum í dag þegar nýja varðskipið Þór lagði þar að bryggju. Þyrlur Landhelgisgæslunnar, TF-Líf og TF-Gná sveimuðu yfir meðan varðskipið sigldi inn og skotið var úr fallbyssu á Skansinum við innsiglinguna.
Þór mun dvelja næturlangt í Eyjum en kemur til Reykjavíkur á morgun og verður tekið á móti varðskipinu á Miðbakka Reykjavíkurhafnar klukkan 14. Skipið verður opið til sýnis frá kl. 14.30-17 og eru allir velkomnir um borð. Þór verður einnig til sýnis á Miðbakka föstudag, laugardag og sunnudag kl. 13-17. Varðskipið mun koma víða við á landinu á næstu mánuðum þar sem skipið verður til sýnis fyrir alla áhugasama.