„Ekki við allavega,“ sagði Jón H.B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri aðspurður hvort einhver fengi nú eina milljón króna í verðlaunafé, sem Frank Michelsen úrsmiður hét þeim sem gefið gæti vísbendingar til að upplýsa ránið. Fram kom á blaðamannafundinum í dag að margt hefði spilað inn í til að upplýsa málið og lögregla teldi erfitt að leggja mat á það hvort einhver einn hefði gefið nógu haldgóðar ábendingar til að fá milljónina frá Michelsen.
Þeir Jón og Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri, sem greindu frá málavöxtum í dag, sögðu að fjölmargar ábendingar hefðu borist eftir að mynd úr öryggismyndavél var birt af manni með bakpoka sem réttilega var talinn tengjast ráninu. Ekkert eitt hefði ráðið úrslitum við að leysa málið. „Það er óljóst hvað af því nákvæmlega skipti máli, í raun skipti allt máli og þá fyrst og fremst eljan og dugnaðurinn í mannskapnum hér í öllum deildum sem vann saman. Við vildum fyrst ekki segja frá því hvað er að gerast til að spilla ekki rannsókninni, en þetta gekk allt upp núna eftir hádegi og þá var engin ástæða til að bíða lengur."
Mennirnir fjórir sem grunaðir eru um ránið eru á fertugsaldri og sem fyrr segir allir pólskir ríkisborgarar. Maðurinn sem náðist á mynd er einn þeirra þriggja sem fóru af landi brott strax eftir ránið.
Mennirnir komu ekki allir saman hingað til lands, þrír komu saman en sá fjórði kom stakur. Hafði hann að talið er það hlutverk að koma ránsfengnum úr landi þegar um hægðist. „Við erum með nöfnin á þeim öllum og erum smátt og smátt að fá mynd af þeim,“ sagði Hörður. Aðspurður sagðist hann ekki geta upplýst hvort þeir ættu langan glæpaferil að baki eða væru á skrá hjá Interpol.