Verðmæti þýfis sem tvær konur eru taldar hafa stolið úr fata- og skóverslunum hér á landi hleypur á mörgum milljónum, að mati lögreglu. Þýfið fyllti um 40 svarta ruslapoka þegar það var fært á lögreglustöð. Ekki er vitað hvort þær hafi komið hluta af þýfi sínu í verð.
Aðalsteinn Aðalsteinsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að málið hafi komið upp á fimmtudag þegar höfð voru afskipti af aðilum málsins vegna hnupls í Smáralind. Málið var rannsakað áfram og í gær var ráðist í húsleitir á tveimur stöðum. Magnið kom lögreglu á óvart, Aðalsteinn segir það gríðarlegt og erfitt að leggja mat á verðmætið, þótt ljóst sé að það sé mikið. Rannsókn málsins sé á frumstigi.
Ljóst má vera að þjófnaðurinn var skipulagður.
Aðalsteinn segir ekki víst hvenær viðkomandi hófu brotastarfsemina en á hinn bóginn sé ljóst að þjófnaðurinn hafi staðið yfir í langan tíma. Aðalsteinn segir að áður en fatnaðinum var stolið hafi þjófavarnarbúnaður verið fjarlægður af flíkunum og skónum. Í sumum tilvikum séu verðmerkingar enn á þýfinu.
Konurnar tvær voru í dag úrskurðaðar í vikulangt gæsluvarðhald.