Úrin úr ráninu fundin

Hluti af þýfinu var sýndur á lögreglustöðinni.
Hluti af þýfinu var sýndur á lögreglustöðinni. mbl.is/Júlíus

Lögreglan í Reykjavík hefur fundið úrin sem rænt var úr verslun Michelsen á Laugavegi í síðustu viku. Þrír vopnaðir menn ruddust þá inn í verslunina og létu greipar sópa. Ræningjarnir komust undan með umtalsvert magn af þýfi, svo sem Rolex-, Tudor- og Michelsen-úr að andvirði 50-70 milljóna króna, að talið er, en þau hafa nú verið endurheimt.

Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu nú fyrir stundu, þar sem ránsfengurinn er til sýnis. Einn maður hefur verið handtekinn vegna ránsins en þrír aðrir sem grunaðir eru um aðild komust úr landi strax á fyrsta sólarhringnum eftir ránið að sögn lögreglu. Mennirnir eru allir pólskir og voru ekki búsettir á Íslandi. Lögregla veit ekki til þess að þeir hafi komið hingað til lands áður. Talið er að þeir hafi komið hingað gagngert til að fremja ránið og dvalið hér í um það bil viku til undirbúnings áður en þeir létu til skarar skríða. Lögregla hefur borið kennsl á alla mennina og unnið er að því að handsama þá þrjá sem sluppu úr landi.

Ítarleg leit var gerð að ræningjunum og þýfinu eftir að tilkynning barst um ránið á 11. tímanum á mánudagsmorgun. Var landamæragæsla meðal annars hert í kjölfarið vegna gruns um að ræningjarnir kynnu að flýja úr landi með ránsfenginn.

Hörður Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, og Jón H. B. …
Hörður Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, og Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri, á blaðamannafundi lögreglunnar í dag. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert