Gagnrýna sölu hvalkjöts í Leifsstöð

Hvalkjöt.
Hvalkjöt. mbl.is/Eggert

Bandarísk samtök um verndun höfrunga og hvala (The Whale and Dolphin Conservation Society) fara hörðum orðum um Leifsstöð í fréttatilkynningu sem þau sendu frá sér í dag. Ástæðan er sala á hvalkjöti í flugstöðinni, eða nánar tiltekið sú staðreynd að starfsfólk í Leifsstöð upplýsi ekki ferðamenn að hvalkjöt sé ólöglegt í sumum löndum.

Fjallað er um málið í pistli á vefsíðu breska tímaritsins The Economist í dag. Er þar vitnað í yfirlýsingu dýraverndunarsinnanna, sem segja að fulltrúar á þeirra vegum hafi nýlega keypt sér hvalasteikur í "Inspired by Iceland"-versluninni í Leifsstöð. Þeir hafi tvisvar keypt sér kjöt, með viku millibili, og í bæði skiptin hafi starfsfólk verslunarinnar gefið rangar upplýsingar með því að fullyrða að það væri löglegt fyrir flugfarþega að taka kjötið með sér til Bandaríkjanna. „Þegar raunin er sú að þeirra gæti beðið handtaka og lögsókn samkvæmt bandarískum lögum um ólögleg viðskipti með villt dýr," segir í yfirlýsingu WDCS.

Framkvæmdastjóri samtakanna, Chris Butler-Stroud, segir jafnframt að það sé óhugsandi að Íslendingar viti ekki af þeim hömlum sem séu á innflutningi hvalkjöts til Bandaríkjanna og Bretlands. „Ísland sendir alþjóðalögum langt nefið og það er kominn tími til að Obama forseti taki af sér sparihanskana og setji bann við innflutningi á íslenskum vörum til Bandaríkjanna, þangað til Íslendingar hætta hvalveiðum fyrir fullt og allt."

Í pistli The Economist er heldur lítið gert úr æsingi dýraverndunarsamtakanna. „Starfsmenn í einhverri verslun sýna vanhæfni og WDCS bregst við með því að krefjast verslunarstríðs. Það virðast vera fremur öfgafull viðbrögð. En vissulega þarf Inspired by Iceland-verslunin að bæta starfshætti sína," segir á vef The Economist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert