Á efnahagsráðstefnu ríkisstjórnarinnar sem haldin er í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í dag, er kynjahlutfall fyrirlesara og umræðustjóra afar ójafnt, konum í óhag.
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna segir á bloggi sínu í dag að þetta sé ráðstefna karla út frá karllægu sjónarhorni.
„Ráðstefna karla um það hvernig þeir hafa reist við kerfi sem þeir felldu sjálfir. Um það hvernig endurreisn karllægra áhersla gangi og hvaða karllægu úrlausnarefni bíði þeirra,“ segir Sóley og segist hundur heita ef einhver minnist á kynjaða hagstjórn, stöðu kvenna fyrir og eftir hrun, áhrif hrunsins á umönnun og velferð innan veggja heimilanna, kynbundið ofbeldi eða klámvæðingu.
„Kynjaðar staðalmyndir sem ýta undir áhættusækni og áhættufælni verða varla ræddar, né heldur kynbundinn launamunur,“ segir Sóley.
„Nú er komið að því að gagnrýna minn eigin flokk – og Samfylkinguna, sem er með okkur í ríkisstjórn,“ segir Sóley. „Ég hélt í alvörunni að það væri eitthvað að gerast í jafnréttismálum á Íslandi. Ég hélt að Vinstri græn og Samfylking myndu leggja sitt af mörkum og vinna samviskusamlega að kvenfrelsi. Ég hef aldrei gert kröfu um að þessi ríkisstjórn uppræti kynjamisrétti ein og sér eða skyndilega – en ég hef í alvörunni viljað trúa því að hún legði sig fram um að tryggja sjónarmið beggja kynja innan stjórnarráðsins og á vegum þess.“
Hún segir að ljóst sé að karllægar áherslur séu skaðlegar fyrir hagkerfið. „Það hefur reynslan aldeilis sýnt okkur. Velferðarkerfið er grunnurinn að hagsælu samfélagi, ofbeldi og klámvæðing eru rándýr fyrir samfélagið og svona gæti ég lengi talið. En þessar hliðar hagkerfisins verða varla til umræðu á ráðstefnunni. Kynjakerfið er ekki til – bara feðraveldið í allri sinni dýrð.“
„Það sorglega er að karlarnir geta talað sig hása um frumjöfnuð og hagvöxt og ríkisbúskap og gjaldeyrishöft – en það mun engu breyta. Samfélagið mun ekki breytast á meðan aðeins helmingur þess hefur möguleika á að taka þátt í umræðum og hafa áhrif.“