Mikill munur er á milli landa innan OECD þegar kemur að fátækt og jafnrétti til náms, samkvæmt nýrri könnun. Ísland og hin löndin á Norðurlöndum skora hæst þegar kemur að jöfnum aðgangi til náms en efnuð lönd eins og Bandaríkin, Þýskaland og Bretland koma ekki eins vel út.
Almennt er niðurstaðan sú að lönd Norður-Evrópu standa sig best í því að tryggja öllum þegnum sínum jöfn tækifæri. Fjöldi ríkja stendur sig hinsvegar miður vel og fá Bandaríkin, Grikkland, Síle, Mexíkó og Tyrkland lægstu einkunn í nýrri rannsókn Bertelsman Stiftung-stofnunarinnar í Þýskalandi. Stofnunin kannaði stefnu OECD-landana varðandi jöfn tækifæri á vinnumarkaði og í heilbrigðis- og menntakerfinu, aðgerðir þeirra til að draga úr fátækt og félagslegri mismunun og jafnræði milli kynslóða.
Ísland kemur almennt vel út úr rannsókninni nema þegar kemur að ójöfnuði milli kynslóða. Bertelsman Stiftung-stofnunin telur sýnt að við mörgum OECD-ríkjum blasi mikill vandi vegna þess að eldri kynslóðir skilji eftir sig sviðna jörð. Vaxandi skuldavandi þessara ríkja sé áhyggjuefni og hættan sé sú að þær skuldir sem nú safnist upp verði gríðarleg byrði fyrir komandi kynslóðir. Þau lönd sem standa verst að þessu leyti eru samkvæmt rannsókninni Írland, Ísland, Ítalía, Grikkland og Japan.