Boðað er til mótmæla fyrir utan Hörpuna í hádeginu í dag en þar fer fram ráðstefna á vegum íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Segja skipuleggjendur að um sé að ræða þriðja í rauðu neyðarkalli og vísa þar til þess að kveikt var á blysum í tengslum við Icesave-samninginn. Nú þegar eru einhverjir mótmælendur mættir fyrir utan Hörpu.
„Rautt neyðarkall sást fyrst í desember 2009 niður a Austurvelli meðan á atkvæðagreiðslu Icesave II stóð yfir. Atburðurinn var svo endurtekinn stuttu síðar á hlaðinu heima á Bessastöðum. Þetta var í janúar 2010 en tilefnið var það að Indefence-hópurinn afhenti forsetanum undirskriftarlista varðandi kröfur um að vísa ákvörðun um skuldbindingu islenska ríkisins vegna Icesave til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í hádeginu í dag má því segja að sé þriðji í rauðu neyðarkalli. Fólk er hvatt til að fjölmenna niður við Hörpuna en þar fer fram ráðstefna haldin í samvinnu íslenska ríkisins og Alþjóðagjaldeyrisstjóðins sem samkvæmt tilkynningu fjallar um fyrirmyndarárangur af samstarfi fyrrgreindra aðila við að ná upp efnahagslífinu án þess að það bitni verulega á félagslega kerfinu.
Gera má ráð fyrir að athöfnin hefjist korter til tuttugu mínútum yfir tólf þannig að þeir sem eru í hléi frá vinnu á þessum tíma hafi tíma til að koma sér niður eftir og taka þátt," segir í tilkynningu.