LÍÚ fékk sérfræðinga til að meta áhrif frumvarpa tengdum sjávarútveginum, að sögn Adolfs Guðmundssonar, formanns LÍÚ. Að mati endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte yrðu neikvæð áhrif á sjóðsstreymi sjávarútvegsfyrirtækja á 15 ára tímabili um 320 milljarðar og fer úr því að vera jákvæð um 150 milljarða í að verða neikvæð um 170 milljarða.
Samkvæmt lögum um ársreikninga og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum bæri að afskrifa og gjaldfæra allar keyptar aflaheimildir strax eða rúma 210 milljarða með tilheyrandi áhrifum á eigið fé fyrirtækjanna. Þetta myndi leiða af sér fjöldagjaldþrot í greininni með tilheyrandi áhrifum á lánastofnanir, að því er fram kom í ræðu Adolfs á aðalfundi LÍÚ sem nú stendur yfir.
„Lögmannsstofan LEX taldi að með samþykkt frumvarpanna yrði gengið of nærri rétti útgerðanna sem varin eru af stjórnarskránni auk þess sem fjöldi athugasemda var gerður við frumvörpin að öðru leyti. Raunar tel ég að frumvörpin hafi verið það illa ígrunduð að þau hafi ekki verið þingtæk," segir Adolf.
Hann segir að sú óvissa sem sjávarútvegurinn hefur búið við undanfarin tvö ár hafi valdið því að fjárfestingar í sjávarútvegi hafa verið í algjöru lágmarki.
„Þannig hefur mikil fjárfestingarþörf safnast upp sem nauðsynlegt er að bregðast við ella veikist samkeppnishæfni okkar fljótt og við drögumst aftur úr."