Niðurskurðurinn of mikill

Joseph Stiglitz.
Joseph Stiglitz.

Joseph Stiglitz, prófessor við Columbiaháskóla, sagði í ávarpi á ráðstefnu íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í dag, að hann teldi að ekki hafi verið þörf á jafn miklum niðurskurði ríkisútgjalda og raunin varð á eftir fjármálahrunið. 

Sýnt var myndband í upphafi ráðstefnunnar þar sem Stiglitz fjallaði um þær aðgerðir, sem gripið var til hér á landi eftir hrunið. Sagði hann að það væri opin spurning hvort minni niðurskurður hefði leitt til meiri hagvaxtar og minni fólksflótta til útlanda.  

Hann sagði, að efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland hefði þó verið mun sveigjanlegri en slíkar áætlanir hefðu verið áður gagnvart öðrum ríkjum. Krafa um niðurskurð hafi ekki verið jafn mikil og stjórnvöld hefðu fengið svigrúm við endurreisnina. Þetta hafi því allt verið skref í rétta átt.

Þá sagði Stiglitz, að sú stefna íslenskra stjórnvalda að gera lánardrottna og hluthafa bankanna ábyrga fyrir falli þeirra hafi skipt sköpum við endurreisnina hér á landi.

„Ég held að það sé ekki búið að leysa vandamál fjármálakerfisins enn. Það er enn verið að endurskipuleggja skuldastöðuna, tveir af stóru bönkunum eru í erlendri eigu; fjármálakerfi landa ganga oft ekki í takt við hagsmuni þjóðanna og enn frekar ef fjármálastofnanir eru í höndum útlendinga. Og loks eru lagalegar deilur enn óútkljáðar: Hvað mun gerast í málum Icesave? Ég held að Ísland hafi gert rétt í því máli. Það hefði verið rangt að láta næstu kynslóðir axla ábyrgð á mistökum annarra fjármálakerfa, í þessu tilfelli Breta og Hollendinga, við eftirlit með bönkunum."

Hægt er að fylgjast með ráðstefnunni í beinni útsendingu á vef Seðlabankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert