Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks voru afar óánægðir á bæjarstjórnarfundi í gær með að vera ekki upplýstir um að fulltrúar Depfa-bankans væru komnir til landsins til viðræðna við fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar en fundur um endurfjármögnun bæjarins fór fram á sama tíma. Sögðu þeir umræðu um framtíð bæjarins ráðast mjög af því hvernig á fundinum færi.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, fór reyndar fram á að að bæjarstjórnarfundinum yrði frestað vegna fundarins með fulltrúum Depfa-banka en tillagan var felld.
Síðar lagði hún fram bókun þar sem segir að bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks "finnst það óásættanlegt að hafa verið meinað um að setja endurfjármögnun Hafnarfjarðarbæjar á dagskrá þessa bæjarstjórnarfundar. Einnig er það með ólíkindum að fulltrúar minnihlutans hafi hvorki verið upplýstir um að fulltrúar Depfa-bankans væru komnir til landsins til viðræðna við fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar né boðið að eiga sinn fulltrúa á fundinum sem nú stendur yfir."
Þá sagði Rósa að fundurinn með fulltrúum Depfa hafi komið fulltúrum minnihlutans í opna skjöldu og sýni "svo ekki verður um villst að svokallað samráð og samstarf meirihluta Samfylkingarinnar og Vinstri grænna við aðra kjörna bæjarfulltrúa er einungis í orði en ekki í borði."
Guðfinna Guðmundsdóttir bókaði á móti fyrir hönd fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna að viðræður við lánadrottna bæjarfélagsins vegna endurfjármögnunar séu í eðlilegum og réttum farvegi og bæjarstjóri njóti fyllsta trausts og stuðnings til að tryggja hagsmuni bæjarins og bæjarbúa í hvívetna.