Tvær konur búsettar á Íslandi af erlendu bergi brotnar hafa verið úrskurðaðar í gæsluvarðhald til 2. nóvember grunaðar um stórfelldan þjófnað úr verslunum á höfuðborgarsvæðinu.
Við húsleitir fann lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mikið magn af fatnaði sem talinn er vera þýfi. Er verðmætið talið á annan tug milljóna.
Í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, að allt að sex milljarðar króna tapist á hverju ári vegna þjófnaðar úr verslunum á Íslandi. Í 80-90 prósentum tilvika þar sem miklum verðmætum sé stolið sé um að ræða brotafólk af erlendum uppruna.
Gagnrýnir hann hvernig tekið er á þessum málum og bendir á að aðeins sé ákært í um tuttugu prósentum tilfella.