Þór í heimahöfn

Þór á leið til hafnar í Reykjavík
Þór á leið til hafnar í Reykjavík mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Varðskipið Þór, nýtt eftirlits- og björgunarskip Íslendinga, kom til hafnar í Reykjavík í dag. Skipið var afhent í Síle fyrir rúmum mánuði.

Skipið var afhent 23. september og var lagt af stað frá Talchuano í Síle 28. september. Siglt var um Panamaskurð 6. og 7. október, stoppað í fjóra sólarhringa í Boston, þar sem meðal annars var tekið hús á bandarísku strandgæslunni áður en siglt var til Halifax í Kanada þar sem allur dráttarbúnaður var tekinn um borð.

Nýja skipið er fjórða skip Landhelgisgæslunnar sem ber nafnið Þór. Landssjóður keypti fyrsta skipið af Björgunarfélagi Vestmannaeyja og var afsalið gefið út 1. júlí 1926, sem jafnframt er stofndagur Landhelgisgæslu Íslands.

„Þetta breytir öllu,“ segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, um nýjasta skipið í flotanum, varðskipið Þór, í samtali við Morgunblaðið í dag.

Georg bendir á að Landhelgisgæslan hafi síðast fengið nýtt skip 1975 en vekur um leið athygli á því að Týr og Ægir, varðskipin sem fyrir eru, hafi reyndar verið endurbyggð nær þrisvar sinnum og séu því í góðu lagi. „Þau eru samt barn síns tíma í grunninn, hafa ekki stækkað og vélarnar eru þær sömu, þó að ýmiss konar tæknibúnaður hafi verið mikið endurbættur. Siglingamynstrið í kringum landið hefur líka gjörbreyst og stærri skip sigla nú með meiri, verðmeiri og hættulegri farm.“

Með tilkomu Þórs verða kaflaskipti í öryggismálum sjómanna og vöktun íslenska hafsvæðisins. Að mati Landhelgisgæslunnar verður skipið öflugur hlekkur í keðju björgunarhópa á Norður-Atlantshafi. Georg segir að nú þegar hafi skipaumferð aukist stórlega frá Norður-Noregi og Rússlandi og með væntanlegri opnun norðaustursiglingaleiðarinnar sé því spáð að hún eigi eftir að aukast til muna. Þór gegni því mjög mikilvægu hlutverki.

Stefnt er að því að halda nýja skipinu á heimaslóðum næstu mánuði en vera áfram með eldri skipin sem mest í verkefnum erlendis. Ægir er í Miðjarðarhafinu og er væntanlegur til landsins í lok nóvember, en Týr, sem er við fiskveiðieftirlit við Nýfundnaland, er væntanlegur í desember. Flugvél Gæslunnar fer í nóvember til Ítalíu og verður þar fram að jólum. Þá verður önnur þyrlan fjarri góðu gamni að minnsta kosti þrjá fyrstu mánuði komandi árs.

Þór kom til hafnar í Reykjavík í dag
Þór kom til hafnar í Reykjavík í dag mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert