Heimilin tryggir viðskiptavinir

Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, segir að tölur þær sem koma fram úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands sýni hversu tryggir viðskiptavinir heimilin eru í bankakerfinu. Fólk geri nánast hvað sem er til þess að greiða reikninga sína.

Hún segir niðurstöðuna, það að yfir 50% heimila á Íslandi eigi í erfiðleikum með að láta enda ná saman, gríðarlegan áfellisdóm yfir ríkisstjórninni og þetta sýni að íslenskt samfélag er ekki samanburðarhæft við hin Norðurlöndin. Ljóst sé að Ísland sé ekki norrænt velferðarríki líkt og forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafi viljað halda fram.

Andrea telur að eitt af því sem skýri hvers vegna vanskilin eru ekki meiri en raun ber vitni megi væntanlega rekja til þess að um fimmtíu þúsund einstaklingar hafi tekið út séreignalífeyrissparnaðinn sinn undanfarin ár. Hún veltir fyrir sér hvað gerist þegar sá sparnaður verður uppurinn og ekki hægt að ganga í hann til þess að greiða reikninga.

„Staðan sem er uppi hjá fjölskyldum undir fertugu er alvarleg. Að ekki skuli vera meiri vanskil getur skýrst af því að séreignasparnaður sé ennþá að fleyta stórum hluta fólks áfram, foreldrar jafnvel að hjálpa börnum sínum.
Ég get mér samt til um að staðan eigi eftir að versna þegar séreignasparnaður fólks er uppurinn, það er verið að fresta vandanum með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin fór í, með að taka framtíðartekjur fólks með þessum hætti. Eins getur greiðslujöfnun stjórnvalda líka verið ákveðin skýring... þeas að allflest heimili fóru inn í hana þar sem þurfti að segja sig frá henni annars og það lækkar greiðslubyrði lánanna núna á þessu kjörtímabili ríkisstjórnarinnar. Greiðslubyrðin kemur þó til með að hækka fljótt þar sem greiðslujöfnunarvísitalan hefur nú farið fram úr vísitölu neysluverðs. Þetta frestar vandanum og lánið verður dýrara þegar á heildina er litið, en það fer inn í framtíðina. Þannig að það er ekki búið að leysa vanda fjöldans, ekki búið að leiðrétta forsendubrestinn, það er bara búið að fresta honum með aðgerðum stjórnvalda.

Þetta og ráðstefnan í gær þar sem öllum erlendum sérfræðingum, sem ekki voru starfsmenn AGS, bar saman um að það þyrfti að ganga miklu lengra í skuldaniðurfærslum heimilanna, að 110% leið stjórnvalda væri alveg galin aðgerð og að það þurfi að taka verðtrygginguna úr sambandi á lánum heimilanna staðfestir allt málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna um að ef á að leysa vanda heimilanna, þá er brýn þörf fyrir róttækar aðgerðir núna. Hagsmunasamtök heimilanna geta ekki stutt leiðir sem einungis eru til þess gerðar að fresta vandanum. Það þarf að horfast í augu við forsendubrestinn sem heimilin urðu fyrir vegna sviksamlegrar starfsemi bankanna og það þarf að draga þá til ábyrgðar. Það er heldur ekki nóg að horfa bara á tölur á blaði, þetta snýst líka um að viðhalda samfélagssáttmálanum - og til þess að svo geti orðið þarf fólk að upplifa réttlæti í aðgerðum."

Fleiri fréttir um sama mál

Fleiri fréttir

Frétt Hagstofu Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert