Lögmaðurinn Baldvin Björn Haraldsson, sem flutti málið fyrir breska innistæðutryggingasjóðinn, fagnar niðurstöðu Hæstaréttar, sem í dag staðfesti það að neyðarlögin frá 2008 haldi gildi sínu. „Fyrstu viðbrögð eru léttir og ánægja með að þessi krafa hafi verið staðfest sem forgangskrafa.“
Neyðarlögin kváðu á um forgang innstæðna í þrotabú fjármálastofnana.
„Það er auðvitað mjög mikilvægt að þessar kröfur hafi notið því sem næst sömu réttinda eins og kröfurnar í íslenskum útibúum, sem voru þá færðar í nýju bankana og fengust greiddar út. Það hefði verið afskaplega sérkennileg niðurstaða að mínu viti ef að þessar innistæður í erlendu útibúunum hefðu ekki notið þessa forgangs, á meðan á innistæður íslenskra borgara, að þær hefðu flust í nýju bankana og fengist greiddar að fullu,“ segir Baldvin sem telur að niðurstaðan sé góð fyrir íslenskt samfélag.
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttadómari, sem er einn af sjö dómurum sem dæmdu í dag, skilaði sératkvæði í öllum málunum.
Baldvin segir að Jón Steinar hafi þá skoðun að þessi aðgerð, að veita þessum innistæðum forgang, brjóti gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Hann taki hins vegar fram í sínu sératkvæði að þetta eigi einungis við innistæður sem voru í gömlu bönkunum, þ.e. trygging á forgangsrétti hafi brotið gegn þá eignarrétti annarra sem hafi átt kröfur í gamla bankann.
„Sem betur fer fyrir samfélagið, finnst mér, þá er hann í minnihluta,“ segir Baldvin.
Aðspurður segir Baldvin ljóst að skv. dómi Hæstaréttar, þá fáist krafa innistæðueigendanna greidd að mestu, ef ekki öllu leyti, úr slitabúi Landsbankans.
„Þar af leiðandi er lítið sem ekkert eftir sem að hugsanlega menn gætu deilt um, ég tala nú ekki um öll þessi mál sem hafa varðað Icesave. Málið er í rauninni, vonandi, að mestu leyti úr sögunni,“ segir Baldvin.