Munum áfram nota krónu

Steingrímur J. Sigfússon ávarpar Landsfund VG á Akureyri undir kvöld.
Steingrímur J. Sigfússon ávarpar Landsfund VG á Akureyri undir kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ekkert bendir til annars en að krónan verði gjaldmiðill Íslands í fyrirsjáanlegri framtíð.“ Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á landsfundi VG, sem hófst á Akureyri í dag.

„Sæluríki evrunnar lítur nú ekki beinlínis vel út um þessar mundir og jafnvel norska krónan, sem ég hef stundum verið grunaður um að daðra við, hefði nú reynst íslenskum veruleika strembin með sínum olíustyrk undanfarin misseri. Á Íslandi erum við að ná utan um okkar vanda, allavega þann sem snýr beint að okkur sjálfum, og höfum lært þá lexíu að við getum til lengri tíma litið ekki eytt meiru en við öflum. Íslandsvinurinn og nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Paul Krugman, benti í gær á það á ráðstefnu hér á landi, að krónan hefði hjálpað landinu í gegnum hrunið. Ég er sannfærður um að atvinnuleysi hér á landi hefði farið, a.m.k. tímabundið, í háa tveggja stafa prósentutölu, ef við hefðum ekki haft okkar eigin gjaldmiðil, úr því sem komið var.

Og er ekki reynsla sumra annarra þjóða að sýna að það er nákvæmlega eins hægt að setja sig á hausinn í evrum og krónum? Meira að segja mætti halda því fram að hið falska öryggi evrunnar hafi leitt margar þær þjóðir sem nú eru í vanda, einmitt í þær ógöngur sem þær eru í. Ekkert bendir til annars en að krónan verði gjaldmiðill Íslands í fyrirsjáanlegri framtíð með þeim eina fyrirvara að gjaldmiðlamál heimsins alls eru á hverfanda hveli. Allavega er það ljóst að engin gjaldmiðils- og peningastefna verður mótuð hér á landi, með aðild okkar vinstri grænna, öðruvísi en að krónan verði þar fullgildur valkostur við aðrar hugmyndir. Það er vissulega krefjandi verkefni að treysta þannig undirstöður efnahagslífs og ríkisfjármála að hægt sé að reka eigin gjaldmiðil.

En mistök fortíðarinnar mega ekki berja úr okkur kjarkinn og eru engin sönnun þess að það sé ekki hægt. Stefna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Evrópumálum er óbreytt, að hagsmunum okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess, og það gera aðrir flokkar, þar með talið vinir okkar og samstarfsaðilar í Samfylkingunni, rétt í að hafa í huga,“ sagði Steingrímur.

Breytingar á skattkerfinu í samræmi við stefnu VG

Steingrímur sagði að ríkisstjórnin hefði orðið að takast á við þann mikla halla á ríkissjóði sem varð eftir hrun. Ekki hefði verið hægt að komast hjá því að hækka skatta til að stöðva tekjufall ríkissjóðs. Ekki hefði verið hægt að reka velferðarkerfi á erfiðleikatímum, með auknum útgjöldum t.d. vegna atvinnuleysis, á horfnum góðæristekjum.

„Breytingar okkar í skattamálum hafa þó ekki aðeins miðað við að stöðva tekjufallið, heldur eru þær algjörlega í samræmi við pólitíska stefnumótun og tillögur flokksins fyrir alþingiskosningarnar 2009 og árin þar á undan. Þær tillögur miðuðust að því að ná fram meiri tekjujöfnuði í gegnum skattkerfið, innleiða græna skatta, svo sem kolefnisgjald og skattleggja bílaflotann miðað við koldíoxíðslosun, auka tekjur þjóðarinnar af auðlindum, hlífa venjulegum sparnaði fólks, en skattleggja mikinn fjármagnsgróða og stóreignir. Allt þetta hefur tekist. Þeir sem hefðu fyrir því að bera saman skattkerfið í dag og stefnu VG frá umliðnum árum, kæmust að athyglisverðri niðurstöðu.

Greining á áhrifum skattkerfisbreytinganna leiðir í ljós að verulegur tilflutningur á skattbyrði hefur átt sér stað, frá fólki með lægri tekjur, yfir á hátekjufólk og stóreignafólk. Helmingur hjóna, ca. 31.000 hjón, greiða nú lægra hlutfall af tekjum sínum í tekjuskatt og útsvar, þ.m.t. fjármagnstekjuskatt, á árinu 2010 en þau gerðu árið 2008. Kannski er það þess vegna sem formaður Sjálfstæðisflokksins talar um að nauðsynlegt sé að afnema allar skattkerfisbreytingar núverandi ríkisstjórnar. Svo að hægt sé að viðhalda ójöfnuðinum í samfélaginu?“ sagði Steingrímur.

Ræða Steingríms

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka