Neyðarlögin sanna gildi sitt

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að neyðarlögin svonefndu, sem sett voru í október 2008, hafi þegar sannað gildi sitt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bjarna, sem hann sendi frá sér í kjölfar þess að Hæstiréttur staðfesti að neyðarlögin, sem sett voru til að tryggja stöðu innistæðueigenda á Íslandi, standist stjórnarskrá.

„Lögin voru sett þegar mikið reið á að bregðast hratt og örugglega við til að takmarka tjón vegna falls bankanna. Fyrir lögunum mælti þáverandi forsætisáðherra Geir H. Haarde.

Lögin hafa þegar sannað gildi sitt og hafa viðbrögð íslenskra stjórnvalda á þessum upphafsdögum verið nefnd sem dæmi um góða ráðsmennsku, þar sem tjón vegna bankanna var takmarkað og byrðinni ekki velt yfir á skattgreiðendur.  Nú er ljóst að ekki verða bornar frekari brigður á lögmæti neyðarlaganna fyrir dómstólum hér á landi.

Þá er rétt að minna á að ólokið er landsdómsmáli því er meirihluti Alþingis studdi, gegn Geir H. Haarde, forsætisráðherranum sem fór fyrir setningu neyðarlaganna. Einnig er rétt að minna á að núverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sá sér ekki fært að styðja þau, né aðrir þingmenn vinstri grænna," segir í tilkynningu Bjarna.

Neyðarlögin svonefndu voru sett að kvöldi 6. október 2008. Þingmenn þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, og Framsóknarflokksins greiddu atkvæði með lögunum en þingmenn Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins sátu hjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert