Lára Björnsdóttir formaður Velferðarvaktarinnar segir niðurstöður lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands 2011 vera birtingarform kreppurnar og sér fyrir sér að tölurnar eigi bara eftir að hækka á næstu árum.
„Kreppa er eins og flóðbylgja sem eftirbylgjur fylgja lengi á eftir. Auðvitað geta aðgerðir bjargað þessu. Ef ríkisstjórnin myndi ákveða myndarlega að fara inn í aðstæður þessara fjölskyldna sem standa verst og ef að þessar aðgerðir sem hafa verið settar af stað myndu virka yrði þetta til skemmri tíma. En ég óttast að þessar tölur muni ekki lækka fyrr en eftir einhver ár."
Velferðarvaktin hefur tekið saman í einum félagsvísi sínum hlutfall þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman samkvæmt lífskjararannsóknum Hagstofunnar. „Árið 2004 vorum við að koma út úr síðustu kreppu sem var ekki eins djúp og þessi en þá voru 46,2% sem sögðust eiga erfitt með að ná endum saman.
Næsta ár á eftir voru þeir 36,8 %. 2006 voru þeir 34,8%, í góðærinu 2007 fór talan niður í 28,4% og árið 2008 var hún í 30%. Árið 2009 eru þeir komnir upp í 39%, 49,3% í fyrra og svo nú eru þeir 51,5% sem segjast eiga erfitt með að ná endum saman," telur Lára upp og bætir við að þessar tölur komi henni ekki sérstaklega á óvart.
„Það er hækkandi verðlag og verðbólgan þýðir það að öll verðtryggðu lánin hækka svo róðurinn verður þyngri fyrir fólk. Þetta er auðvitað mat einstaklinga á eigin fjárhagsstöðu. Það er líka ekki alveg sambærilegt með tekjur og að ná endum saman. Það eru margir með mjög góðar tekjur sem eru búnir að skuldsetja sig rosalega og eiga því erfitt með að láta enda ná saman. Það eru allskonar aðstæður sem er ekki farið ofaní þarna," segir Lára.
Samkvæmt norræna velferðarmódelinu þarf tvær fyrirvinnur að sögn Láru. „Tölurnar með einstæðu foreldrana koma ekki á óvart. Í okkar síðustu tillögum til stjórnvalda var efst á blaði að bregðast við þessum mikla fjárhagsvanda sem fátækar barnafjölskyldur, einkum einstæðir foreldrar, búa við. Þess vegna þarf stuðning við einstæða foreldra og lágtekjufjölskyldur þar sem bara annað foreldrið getur unnið eða slíkt. Það sem við hjá Velferðarvaktinni höfum mestar áhyggjur af eru barnafólkið og við höfum lagt mikla áherslu á að gæta barnanna."