Alcoa á Reyðarfirði hefur hug á að stækka álverksmiðju sína á Reyðarfirði og auka þannig framleiðsluna um 40 þúsund tonn á ári. Þetta staðfesti Tómas Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Tómas sagði að til þess að af stækkuninni gæti orðið þyrfti fyrirtækið á um 40 megavöttum að halda í aukinni raforku. „Við eigum í samningaviðræðum við Landsvirkjun um möguleika á því að kaupa meiri raforku af þeim,“ sagði Tómas.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Tómas, að ef af yrði myndi Alcoa fjárfesta fyrir á milli 20 og 25 milljarða króna í verkefninu. „Það fengju svona 150 til 200 manns atvinnu á framkvæmdatímanum, en þetta er jú sagt án allrar ábyrgðar, því hér er um gróft mat að ræða,“ sagði Tómas.