Malbikunar-framkvæmdum á Suðurstrandarvegi lauk í gær og þar með er komið bundið slitlag frá Þorlákshöfn alla leið til Grindavíkur. Þetta kemur fram á Sunnlenska fréttavefnum.
Suðurstrandarvegur átti ekki að verða tilbúinn fyrr en í september 2012 og eru framkvæmdirnar því tæpu ári á undan áætlun. Sunnlendingar fagna þessu því þeir hafa beðið nýs Suðurstrandarvegar með eftirvæntingu um langt skeið, enda verður hann mikil bylting í samgöngum. Að sögn Sunnlenska búast íbúar í Grindavík og á Reykjanesi við því að umferð þangað muni margfaldast við opnun vegarins.
Róbert Ragnarsson, bæjarstjórinn í Grindavík, segir að vegurinn muni breyta talsverðu fyrir Suðurland og Suðurnesin.
„Þetta mun væntanlega hafa mjög mikil áhrif á ferðaþjónustuna. Þegar fólk kemur til landsins hefur það val um að fara strax á Suðurlandið í stað þess að fara um höfuðborgarsvæðið. Eins skapar þetta möguleika á skemmtilegum dagsferðum frá t.d. höfuðborgarsvæðinu. “
Vegurinn milli Þorlákshafnar og Grindavíkur er 58 kílómetra langur. Búið er að leggja bundið slitlag sem áður segir en öllum frágangi s.s. við að setja upp stikur og annað er er þó ekki lokið og vegurinn ekki formlega verið opnaður samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.