Kristján Sveinbjörnsson, formaður Svifflugfélag Íslands, segir túlkun Flugmálastjórnar Íslands á Evrópureglugerð kyrrsetja allt svifflug á Ísland út af mikilli pappírsvinnu sem fylgi henni og miklum kostnaði.
„Það liggur fyrir að þessum Evrópureglum verður breytt núna og kröfurnar minnkaðar vegna andstöðu þeirra sem eru í einkaflugi í Evrópu. Það er verið að setja sambærilegar skriffinnskukröfur á einkaflugið og er í atvinnufluginu þar sem vélar eru að fljúga þúsundir tíma á ári. Það ber sig ekki að vera með tuga tíma pappírsvinnu fyrir ekki meira en 50 til 200 tíma flug á ári í sviffluginu.“
Kristján segir reglugerðina ekki auka öryggi og fullyrðir að hún minnki öryggi frekar en að auka það.
„Öll áhersla er lögð á pappírsvinnu gagnvart viðhaldi í stað þess að bæta raunverulegt öryggi loftfaranna. Reglugerðin kallar á ofmikla pappírsvinnu sem er íþyngjandi.“
Reynt hafi verið að ná sátt við Flugmálastjórn án árangurs þar sem Flugmálastjórn vísi mönnum eingöngu á kæruleið. Svifflugfélag Íslands hefur í kjölfarið lagt inn stjórnsýslukæru.