Hátt í 6.000 hafa skoðað Þór

Varðskipið Þór í Reykjavíkurhöfn.
Varðskipið Þór í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Alls fóru um 3.500 manns um borð í varðskipið Þór í dag, en skipið liggur við Miðbakkann í Reykjavíkurhöfn og var opið almenningi til klukkan 17 í dag. Mikill áhugi virðist vera meðal almennings að skoða skipið og að sögn Hrafnhildar Brynju Stefánsdóttur upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar hafa á milli 5.000 og 6.000 manns skoðað skipið síðan það kom til landsins á miðvikudag.

„Það er rosalega gaman að fólk skuli vera svona áhugasamt, ég held það séu bara allir í skýjunum með skipið og ekki síst þeir sem eru búnir að fylgja því og vera lengi í burut, þeir eru glaðir að skipið sé komið heim,“ segir Hrafnhildur. Stanslaus straumur var um borð í dag en allt gekk vel og greiðlega fyrir sig að sögn Hrafnhildar. Starfsfólk tók á móti gestum og fræddu þá um skipið.

Þór verður áfram opinn fyrir almenningi á morgun en áætlað er að strax um næstu helgi leggi skipið upp í hringferð um landið þar sem reynt verður að stoppa sem víðast svo sem flestir geti skoðað gripinn. Hrafnhildur segir að auk þess sé nú unnið að því fullum fetum að þjálfa aðra áhöfn á skipið og gefa mönnum færi á að læra á öll þau glæsilegu tæki sem skipið er búið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka