Tollgæslan og lögreglan á Seyðisfirði fundu mikið magn ætlaðs þýfis í tveimur bílum við brottför Norrænu í vikunni. Ítarleg leit fór fram í bílunum en þeim var ekið af tveimur Litháum á miðjum aldri sem hafa dvalið um nokkurt skeið hér á landi við ýmiss konar verkamannavinnu.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að í bílum þeirra fannst margs konar varningur, sem að langstærstum hluta er talinn vera þýfi úr verslunum hér á landi að undanförnu. Fer lögreglan nú með rannsókn málsins, en að lokinni yfirheyrslu var mönnunum sleppt úr landi með Norrænu.
Alls er um eitt hundrað hluti að ræða sem fundust í bílunum undir hefðbundnum ferðafatnaði. Má þar nefna fatnað ýmiskonar, snyrtivörur, verkfæri, mótorhjól í pörtum, rakvélablöð í stórum stíl og mikið magn af lýsispillum, sem þykir óvenjulegur varningur þegar ætlað þýfi er annars vegar. Engin fíkniefni fundust í fórum mannanna.