Upplýsingar sem Tollgæslan gaf eftir rannsókn sína áttu stóran þátt í að lögreglunni tókst á nokkrum dögum að upplýsa ránið í úraverslun Franks Michelsen við Laugaveg 17. október síðastliðinn.
Maðurinn sem lögreglan handtók í vikunni vegna aðildar að ráninu kom einn til landsins með Norrænu á silfurlitri Audi-bifreið 11. október og samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins vakti hann strax athygli tollvarða og ákvað Tollgæslan að framkvæma ítarlega leit í bílnum. Ekkert fannst eftir sex tíma leit og var manninum sleppt. Tollgæslan lét lögreglu vita um grunsemdir sínar og sendi myndir af manninum og bílnum.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að daginn fyrir ránið fékk lögreglan einnig í hendur upplýsingar um ferðir bílsins en maðurinn skráði sig inn á gistihús í Kópavogi eftir ferðalagið frá Seyðisfirði. Eftir ránið þann 17. október minnti Tollgæslan lögregluna á manninn og fannst Audi-bifreið hans við gistihúsið. Síðar fór fram ítarleg leit í bílnum og í honum fundust öll úrin sl. miðvikudag, vel falin.