Fjöldi fólks hefur í dag lagt leið sína niður á Miðbakka Reykjavíkurhafnar þar sem nýja varðskipið, Þór, er til sýnis og opið almenningi. Greinilegt er að mikill áhugi er fyrir skipinu því þrátt fyrir rigningarveður láta hundruð manna á öllum aldri sig hafa það að standa í röð til að komast um borð.
Hálfgerð þjóðhátíðarstemning ríkir á hafnarbakkanum að sögn blaðamanns Morgunblaðsins sem er á staðnum. Bílum er lagt í öll stæði og börn jafn sem fullorðnir feta sig upp landgang skipsins til að berja það augum, enda þykir skipið hið glæsilegasta. Þótt margir séu á staðnum og röðin löng gengur hún þó hratt fyrir sig þannig allir komast að og almenn gleði liggur í loftinu.
Þór var afhentur 23. september og á að baki rúmlega 7 þúsund sjómílna siglingu frá Síle en fyrsti áfangastaður skipsins við komuna til Íslands var í Vestmannaeyjum, þar sem tekið var á móti honum með fallbyssuskotum. Eyjamenn nýttu margir tækifærið til að skoða skipið meðan það lá við bryggju í Heimaey og greinilegt er að höfuðborgarbúar vilja nú heldur ekki missa af því að sjá skipið áður en það hefur formleg störf.
Þór verður til sýnis til kl. 17 í dag og aftur milli kl. 13 og 17 á morgun. Á næstu mánuðum er svo áætlað að skipið komi víða við um landið og verður það þá opið fyrir áhugasama að skoða.