Ályktun um utanríkismál samþykkt

Steingrímur J. Sigfússon og Álfheiður Ingadóttir á landsfundi VG á …
Steingrímur J. Sigfússon og Álfheiður Ingadóttir á landsfundi VG á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Samþykkt var á landsfundi VG, með þorra atkvæða, tillaga um aðildarviðræður við ESB sem greint var frá í frétt á mbl.is fyrr í dag. Þar er ítrekuð andstaða við aðild að ESB og jafnframt fagnað að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Nató.

Í ályktuninni, um aðildarviðræður við ESB, var áréttað að flokkurinn telji sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB. Í ályktuninni er m.a. nefnt að „í yfirstandandi aðildarviðræðum beri að hafna því að Ísland afsali sér forræði og yfirstjórn sjávarauðlinda innan íslenskrar efnahagslögsögu,“ og lögð er áhersla á að Ísland haldi samningsrétti vegna deilistofna á Íslandsmiðum, og hið sama eigi við um umfang á stuðningi við íslenskan landbúnað svo og um náttúruauðlindir sem fyrirhugað sé að lýsa þjóðareign í nýrri stjórnarskrá.

Ennfremur sagði: „Landsfundurinn bendir á þá miklu skerðingu lýðræðis sem felst í ESB-aðild ásamt fullveldisafsali á fjölmörgum sviðum. Þróun innan ESB að undanförnu, nú síðast vegna átaka um framtíð evru-samstarfsins, stefnir í átt að enn frekari samruna með hertri miðstýringu. Með Lissabon-sáttmálanum er einnig kominn vísir að samstarfi um utanríkis- og hernaðarmálefni. Jafnframt eiga félagsleg sjónarmið, umhverfisvernd, fæðu- og matvælaöryggi og réttindi launafólks undir högg að sækja innan sambandsins. Þá mun VG tryggja að íslenskt stjórnkerfi verði ekki aðlagað stjórnkerfi ESB á meðan á aðildarviðræðum stendur.“

Í ályktunni sagði einnig: „Landsfundurinn telur það vera eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar.“

Jafnframt var samþykktur kafli um Nató sem greint var frá á mbl.is fyrr í dag - nafni hans var reyndar breytt úr „Ályktun um Nató“ í „Ísland úr Nató“ en þar er þeirri tillögu fagnað sem komið hefur fram á Alþingi að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Nató.

Þá var í utanríkismálakaflanum samþykktur kafli þar sem fagnað var framkominni þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um að Palestína verði viðurkennt sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sexdagastríðið 1967.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert