Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur krafið Flugmálastjórn skýringa á því hvers vegna stofnunin hafi veitt undanþágur frá reglum Flugöryggisstofnunar Evrópu. Flugmálastjórn gagnrýnir að notaðir hafi verið varahlutir í mótorsvifflugu sem ekki voru vottaðir.
Eftirlitsmenn Flugmálastjórnar skoðuðu nýlega eina mótorsvifflugu Svifflugfélags Íslands. Af því tilefni voru gerðar nokkrar athugasemdir m.a. um að nota þurfi vottaða varahluti og að gögn þurfi að vera til staðar sem sýna fram á að notaðar séu viðurkenndar aðferðir við breytingar og viðhald.
Í fréttatilkynningu frá Flugmálastjórn Íslands segir að þetta séu grundvallaratriði sem öllum sem stunda flug og þekkja reglur um flugöryggi eigi að vera ljós. „Sé þessum kröfum ekki fylgt leiðir það til þess að svifflugvélin er ólofthæf og úr verður að bæta áður en henni er flogið aftur. Slíkt hefur verið í lögum og reglum í áratugi. Það hefur komið Flugmálastjórn á óvart að forsvarsmaður Svifflugfélags Íslands dragi þessar kröfur í efa en loftför félagsins hafa m.a. verið notuð við flugkennslu.
Hvað varðar reglur um viðhaldsstjórnun sem koma frá Flugöryggisstofnun Evrópu og hafa tekið gildi hérlendis þá hefur Flugmálastjórn veitt alla þá fresti og undanþágur sem mögulegt er til að gera þeim sem stunda einkaflug kleift að aðlaga sig að reglunum. Stofnunin hefur gengið svo langt hvað varðar tilteknar undanþágur að Eftirlitsstofnun EFTA hefur krafið stofnunina skýringa á því hvers vegna slíkt var gert,“ segir í tilkynningunni.