Hvetja til aðgerða gegn vændi

Samtökin Stóra systir berjast gegn vændi á Íslandi.
Samtökin Stóra systir berjast gegn vændi á Íslandi.

Femínistafélagið skorar á innanríkisráðherra, Ögmund Jónasson, að berjast gegn vændi á Íslandi og veita þessum málaflokki meiri athygli og aukið fjármagn. Aukið eftirlit með vændi gæti svipt hulunni af stöðu mansals á Íslandi, vegna tengslanna þar á milli. Til að aðgerðaáætlun stjórnvalda um mansal verði ekki aðeins loforð á blaði þurfi að setja hana í forgang og eyrnamerkja henni fjármagn.

Í ályktun frá Femínistafélaginu segir að félagið fagni þeirri umræðu sem aðgerðir Stóru systur hafi kveikt. „Stóra systir hefur leitt okkur fyrir sjónir að eftirspurn eftir vændi er gífurleg og að vændisheimurinn er ekki huldari en svo að auglýsingar blasa við hverjum þeim sem vill sjá þær í dagblöðum og á internetinu. Árið 2009 urðu breytingar á löggjöf okkar sem gerðu kaup á vændi ólögleg en sölu þess heimila. Þrátt fyrir þessa framsæknu löggjöf vantar stórlega á eftirfylgni með lögunum.

Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu er „ekki ásættanlegt að líta á mannslíkamann sem söluvöru“. Gengið er út frá því í lögunum að ábyrgðin af viðskiptunum hvíli á herðum kaupandans, þar sem hann hafi val og sé í valdastöðu gagnvart seljanda. Femínistafélagið tekur heilshugar undir þessi sjónarmið enda er það að selja aðgang að líkama sínum neyðarúrræði en ekki val. Staðfesting á þessu birtist ekki síst í þeirri staðreynd að konur og karlar sem leita sér aðstoðar eftir vændi hafa hlotið sálrænan, líkamlegan og félagslegan skaða af.

Eins og Stóra systir bendir á endurspegla lögin vilja og veita lögreglunni heimildir til að taka á þeim félagslega harmleik sem vændi er. Eftirfylgnin hefur hins vegar ekki verið sem skyldi og ber lögreglan fyrir sig fjárskort. Rannsókn vændismála er í höndum kynferðisafbrotadeildar sem er verkefnum hlaðin og því þurfa vændismál að keppa um fjármagn og tíma við önnur kynferðisbrot eins og nauðganir og kynferðisafbrotamál gegn börnum. Ljóst er að til að geta sinnt málaflokknum almennilega þarf að eyrnamerkja honum fé. Benda má á að í Noregi, þar sem samskonar lagarammi er um vændi og á Íslandi, hefur verið gripið til þess ráðs að hafa sérstakt vændiseftirlit, sem er rekið af Oslóarborg og heilbrigðisráðuneytinu. Vændiseftirlitið hefur áttað sig á því að vændi fer nú að mestu fram í gegnum netið, og að það er órjúfanlega tengt mansali.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert