Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði í prédikun í Hallgrímskirkju í dag, að ærumeiðingar og mannorðsmorð væru daglegt brauð í opinberri orðræðu fjölmiðla og í bloggheima á Íslandi.
„Þetta er alvarlegt samfélagsmein og ógnun við grundvöll heilbrigðs þjóðfélags. Af hverju þarf þetta að vera svona? Við erum í sorg, þessi þjóð. Þessi þjóð sem fyrir nokkrum árum taldist ein sú hamingjusamasta í heimi. Bankahrunið og meðfylgjandi þrengingar heimila og fjölskyldna, vonleysið og neikvæðnin hafa lagst svo þungt á þjóðina. Leitin að sökudólgum og blórabögglum tekur á og reiðin spýtir galli sínu um þjóðarlíkamann. En hún mun engu skila. Þar er ekki sannleikann að finna, lausnirnar, og framtíðina," sagði Karl.
Hann sagði að engar hagtölur hugguðu í sorg, hvað þá hatrið og hefndin, heldur hin andlegu verðmæti, andlegu viðmið sem beindu sjónum og anda til birtunnar.
Karl flutti prédikunina í hátíðarmessu, sem haldin var í tilefni af 25 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju. Hann fjallaði um sannleikann og sagði m.a. að sigurafl sannleikans gæti bognað og bælst en aldrei brotnað.
Upptaka RÚV á messunni í Hallgrímskirkju